Reynslusaga 1
Ég var lögð í einelti, fyrst þegar ég var 4/5 ára gömul á leikskólanum, en í seinna skiptið var ég 8 til 11 ára og það einelti átti sér stað á skólalóðinni.
Í leikskóla þá var ég alltaf ein af því að besta vinkona mín var á annari deild. Það var alltaf kallað mig ljóta og af því ég var ljót þá mátti ég ekki vera með, en í þau skipti sem ég mátti vera með þá var alltaf látið mig leika leiðinlegu stjúpmömmuna eða þrælinn. Þegar við vorum í kyssustríði þá var alltaf verið að segja að ég væri með vírus og að ég væri ógeðsleg.
Þegar ég varð eldri þá varð eineltið meira líkamlegt en það var einnig andlegt. Þegar ég var að leika mér þá komu strákarnir alltaf og börðu mig, spörkuðu í mig, hentu drasli í töskuna mína eins og mjólk, blautum pappír eða blöðum. Ég er nokkuð viss um að þeir hafi beitt mig líkamlegu einelti af því að ég svaraði fyrir sjálfa mig eins og foreldrar mínir sögðu mér að gera en það virkaði ekki og varð bara verra. Stelpurnar beittu mig andlegu einelti, þær voru alltaf að kalla mig leiðinlega og eitthvað í þá áttina. Ég hef einnig lent í alvarlegu net einelti þar sem einhver bjó til fake aðgang á Snapchat og sendi mér ljót skilaboð og það varð að lögreglumáli af því að manneskjan sendi mér skilaboð um að ég ætti ekki að lifa, ég ætti að hætta á Snapchat og að ég væri ógeðslega leiðinleg.
Samband mitt við gerendurna í dag er alveg sæmilegt, strákana er ágætt en helminginn af stelpunum tala ég ekki við. Ég er smá reið út í þessa aðila en ég er samt ekki að halda því inn í mér í dag, ég gæti alveg talað við þau og kynnst þeim betur en ég hef ekkert mikinn áhuga fyrir því. Það hefur enginn komið til mín og beðist afsökunar, þau þurfa ekki að koma til mín en þau mega gefa það í skyn að þau sjá eftir þessu, nokkrir hafa gefið það í skyn en aldrei sagt fyrirgefðu við mig. Ég hef eiginlega fyrirgefið öllum en það er samt einn og einn sem ég get eiginlega ekki fyrirgefið og vil ekki umgangast. Mér líður mikið betur í dag heldur en þá og því hef ég getað fyrirgefið þeim.
Ég hef lært að það sem átti sér stað er í fortíðinni og ég er mikið betri manneskja í dag, en fyrir stuttu var ég með mjög mikinn kvíða en hann er farinn af því að ég er búin að læra að láta mér líða vel.
Reynslusaga 2
Þegar ég var lögð í einelti þá var ég 12 ára og eineltið átti sér stað í gamla skólanum mínum.
Ég var fyrst alltaf kölluð feit en svo var byrjað að læsa mig inn í stofum, kasta hlutum í mig og ýta mér niður stigana. Ég var reið út í gerendurna en er það ekki lengur og ég er ekki í neinu sambandi við þau í dag. Það hafa þrír af þessum sem lögðu mig í einelti beðist afsökunar og ég hef fyrirgefið þeim. Ég hef verið greind með kvíða, þunglyndi og fullkomnunaráráttu en ég held að það tengist ekki eineltinu.
Að lokum langar mig að biðja fólk um að passa upp á hvað það segir og tali við aðra eins og það vill að það sé talað við sig.
Reynslusaga 3
Ég var lagður í einelti 6 ára og það hélt áfram í langan tíma, það er eiginlega enn þá í gangi en mikið minna. Eineltið var á æfingum og í skólanum og byrjaði á því að krakkarnir voru mjög leiðinlegir við mig af því að ég var félagsfælinn krakki og endaði með því að ég var alltaf með einhverjum krökkum og það var alltaf kallað mig sleikju. Það skaðaði mig ekkert að vera kallaður sleikja en svo þegar ég fór á æfingar þá var ég færður upp um hóp og sleppti í rauninni þrem árum og þar fór fram mikið einelti. Æfingarnar voru verstar, þar fékk ég hnefa, ég var sleginn með handklæðum, hent út úr klefanum þegar ég var enn þá nakinn og bleytt fötin mín. Þegar ég var orðinn eldri þá hitti mest á mig þunglyndi, kvíði, vita ekki hver ég er og að vera einn, það heldur áfram enn í dag.
Ég er ekkert reiður út í gerendurna í dag en ég tala ekkert við þau, ég man ekki einu sinni nöfnin þeirra. Ég er eiginlega glaður að þetta gerðist, ég væri ekki sami maður og ég er í dag ef þetta hefði ekki gerst.
Reynslusaga 4
Ég var lögð í einelti þegar ég var 10 til 13 ára og það átti sér stað á æfingum. Þegar ég byrjaði að æfa þá var það ótrúlega gaman en svo voru margar eldri stelpur sem voru alltaf að ýta í aðrar yngri en það gerði enginn neitt í því af því að þær voru eldri. Þetta byrjaði sem andlegt einelti en svo voru þær stundum að reyna að meiða mig, með því að henda í mig boltum, skjóta í andlitið mitt og þær hreyttu í mig ljótum orðum.
Ég er ekki lengur reið út í þessar manneskjur en ég var það mjög lengi, ég hef oft talað við þær en þær hafa aldrei beðið mig afsökunar en ég veit að það eru alveg nokkrar sem líða fyrir þetta af því að ég lét alveg vita að ég væri reið út í þær. Ég myndi segja að ég væri alveg búin að fyrirgefa flestum.
Síðan ég var lítil hef ég alltaf verið með kvíða en eineltið átti engin upptök á því.
Það sem mig langar að segja að lokum er bara ekki leggja í einelti, af því að þú veist aldrei hvernig manneskjan mun koma út úr því.
Reynslusaga 5
Ég var lögð í einelti þegar ég var 13 til 14 ára á æfingum og í æfingarferðalögum. Ég var alltaf mjög mikið út úr og ég fékk alveg að finna það, ég var alltaf til vara. Þetta fór líka stundum út í líkamlegt þar sem ég fann að allir voru að ýta mér miklu meira en öðrum og ég var alltaf sú sem var meidd eftir æfingar. Í æfingaferðunum var það meira andlegt og ég var alltaf útúr eða út undan og það var mikið verið að sýna mér að ég passaði ekki í hópinn.
Ég er ekki reið út í þær manneskjur sem lögðu mig í einelti, ég get eiginlega ekki verið það, þær eru í rauninni bara fake vinkonur mínar. Það hefur engin komið og beðið mig afsökunar af því að þær vita ekki af þessu. Ég hef ekki alveg fyrirgefið en ég reyndi að sannfæra mig um að svona væri þessi íþrótt og reyndi að taka við gagnrýni en þetta var alltaf svo mikið meira. Ég er alltaf hrædd um að verða dæmd fyrir eitthvað eða vera út undan og mig langar að biðja fólk um að passa sig á því hvað það segir.
Reynslusaga 6
Ég var 12 ára þegar ég var lögð í einelti og það gerðist í skólanum. Ég var uppnefnd af kennurum, þeir öskruðu á mig fyrir ekki neitt, ég var líka uppnefnd af krökkum og lamin inn á milli.
Ég er frekar reið og ég hef ekki talað við manneskjurnar síðan þetta gerðist, enginn hefur beðið mig afsökunar og ég hef ekki fyrirgefið neinum. Þegar fólk talar mjög hátt þá á ég erfitt að vera í kringum það.
Mig langar að biðja fólk um að passa sig, vera gott við fólk og ekki uppnefna aðra.